Þjóðtrú

Nykurinn í Kerinu.

Nykurinn í Kerinu.

Það er gömul sögn að þegar vatnsborð hækkar í Kerinu að þá lækki að sama skapi í tjörninni á toppi Búrfells í Grímsnesi. Lengi var það trú manna að vatnið í Kerinu væri botnlaust eða því jafnvel trúað að þaðan lægju leynigöng út í hafsauga.

Þá herma gamlar sagnir að í vatninu byggi nykur sem héldi sig þar annað hvert ár, en hitt árið hefðist hann við í vatni sem er á toppi Búrfells, nokkru norðar. Nú vitum við að vatnið er ekki djúpt og engar sögur hafa farið af nykrinum á seinni tímum.

Nykur er vel þekkt þjóðsagnavera hérlendis. Honum þykir svipa til hests og er oftast steingrár eða apalgrár að lit. Aðaleinkenni nykursins eru þau að hófarnir snúa aftur og hófskeggin fram, öfugt við það sem er á eðlilegum hesti. Nykurinn má heldur ekki heyra nafn sitt nefnt, þá rýkur hann í vatnið aftur. Nykrar eiga sér hliðstæðu í þjóðtrú nágrannalanda, til dæmis Noregs og Orkneyja.

Nykur er samkvæmt þjóðtrúnni hvort tveggja að finna í ám og stöðuvötnum og jafnvel sjó. Nykurinn reynir gjarnan að tæla menn á bak sér. Þeir sem fara á bak sitja þar fastir með einhverjum hætti en nykurinn hleypur óðar að vatninu þar sem hann á sér óðal, steypir sér á kaf og drekkir þem sem á honum situr. Það hefur borið við að hann hafi fyljað merar af hestakyni.